Jóhanna Björk Halldórsdóttir ( JoBjork )
Ég lauk námi frá Myndlista og Handíðaskóla Íslands árið 1995. Einnig nam ég við The London College of Fashion og kennslufræði við Háskóla Íslands. Einnig hef ég tekið þátt í samsýningum og haldið eina einkasýningu í SIM salnum.
Ég byrjaði að teikna sem barn og eyddi ófáum stundum við þá iðju. Náttúruöflin heilla mig í minni sköpun, ásamt umhverfi, landslagi, hringrás náttúru, samspili lita og stemmingu. Ég vinn með olíu á striga og nýti mér frjálst flæði sem oftast er óhlutbundið. Hver mynd er yfirleitt samsett úr mörgum lögum og gildir þolinmæði alúð og ögun eins og svo oft með olíumálverk, þar sem olían þarf gjarnan að þorna á milli laga. Hver mynd tekur því talsvert langan tíma í vinnslu þar til að niðurstaða næst, sem ég er sátt við.
Mér þykir óendanlega vænt um náttúru okkar, himininn og jörðina okkar allra.
Að horfa á himininn og náttúruna í sínum síbreytilegu árstíðarlitum og hringrás, er fyrir mér eins og listaverk í óendanlegri sköpun og mikilfengleika.
Eftirfarandi ljóð, er í uppáhaldi hjá mér og tengi ég það við náttúru og mannfólkið. Það á jafnt við í samtímanum eins og þegar það var samið.
Hvað varðar þá um vatnið?
sem vínið rauða teyga,
Hvað varðar þá um jörðina,
sem himininn eiga?
Höf: Davíð Stefánsson frá Fagraskógi.